Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 686/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 686/2021

Fimmtudaginn 31. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. janúar 2021 og var umsóknin samþykkt 21. janúar 2021. Þann 12. nóvember 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi sölumanns hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. nóvember 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá því fyrirtæki. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2021. Með bréfi, dags. 11. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 24. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. mars 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. mars 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. mars 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa verið boðið starf hjá B eftir að Vinnumálastofnun hafi sent inn ferilskrá hennar og hún mætt í atvinnuviðtal. Kærandi hafi ekki talið sig geta þegið starfið vegna ýmissa ástæðna, sem betur verði farið í síðar í kæru, og hafi því hafnað atvinnutilboði sem hafi leitt til ákvörðunar Greiðslustofu Vinnumálastofnunar.

Kærandi sé X ára kona við góða heilsu sem hafi síðastliðna áratugi starfað sem sölufulltrúi eða í sölu-, markaðs- og kynningarstörfum hjá hinum ýmsu heildsölufyrirtækjum. Kærandi hafi misst vinnu sína hjá C í kjölfar Covid-19 og hafi síðan þá verið í virkri atvinnuleit en sökum aldurs sé hún sérstaklega með augun opin fyrir starfi sambærilegu þeim sem hún hafi áður unnið og geti starfað við þangað til hún fari á ellilífeyrislaun.

Þegar kærandi hafi afþakkað ofangreint atvinnutilboð hafi það sérstaklega verið tvö atriði sem hafi orðið til þess að hún teldi sig ekki geta þegið boð um starf hjá framangreindu fyrirtæki. Í fyrsta lagi hafi starfið verið auglýst sem 100% starf en í atvinnuviðtali hafi kæranda verið tjáð að starfið fæli í sér vinnu frá klukkan 10 til 18 alla virka daga, auk þess sem krafa væri gerð um að hún sinnti helgarstörfum aðra hvora helgi. Því hafi verið um að ræða rúmlega 100% starf sem Vinnumálastofnun hafi ekki látið kæranda vita af og hvergi hafi komið fram í atvinnuauglýsingunni. Kærandi hafi ekki talið sig geta unnið líkt og krafa hafi verið gerð um en þarna spili inn í bæði hár aldur hennar en einnig veikindi eiginmanns hennar. Eiginmaður kæranda, sem sé X ára, hafi verið að glíma við mikinn heilsubrest síðan í júní 2021 þegar hann hafi fengið slæmt brjósklos. Þann 3. desember 2021 hafi eiginmaður kæranda loks komist í aðgerð vegna þessa en þegar kærandi hafi afþakkað framangreint starf þann 12. nóvember hafi ekki verið fyrirséð hvenær eiginmaður hennar, sem þá hafi enn verið á biðlista eftir að hitta taugalækni, myndi komast í slíka aðgerð. Kærandi hafi ekki getað séð sér fært að þiggja starf sem krefðist þess að hún væri frá alla virka daga frá 10 að morgni til klukkan 18 á kvöldin og að auki annan hvorn laugardag þar sem veikindi eiginmanns hennar hafi verið slík að hann hafi átt erfitt með mikið af daglegum athöfnum síðan í júní. Loks megi nefna að þrátt fyrir víðtæka reynslu af sölu- og markaðsmálum hafi kærandi enga reynslu af afgreiðslustörfum sem starfið hafi einungis gengið út á.

Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun þegar henni hafi boðist starfið og tjáð starfsfólki stofnunarinnar að hún hygðist afþakka það vegna ofangreindra ástæðna. Starfsfólk Vinnumálastofnunar hafi tjáð kæranda að það væri nægjanlegt að hún myndi nefna ofangreint varðandi aldur sinn og að starfið væri meira en 100% starf sem hún treysti sér ekki til að þiggja. Vegna þessara leiðbeininga hafi kærandi ekki talið sig þurfa að greina frá veikindum eiginmanns síns og hafi því ekkert minnst á þau þegar hún hafi skilað inn rökstuðningi vegna niðurfellingar bóta hennar í kjölfar höfnunar á atvinnutilboði hjá B.

Kærandi hafi nú fengið læknisvottorð frá heimilislækni sínum varðandi veikindi eiginmanns hennar sem fylgi með kærunni. Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að Vinnumálastofnun skuli meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengist skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima.

Kærandi telji að hún hafi ekki getað þegið ofangreint starf sem hafi krafið hana um meira en 100% vinnu á viku vegna hás aldurs hennar en einnig vegna umönnunarskyldu hennar við eiginmann sinn sem hafi á þeim tímapunkti sem henni hafi boðist starfið átt, eins og áður segi, mjög erfitt með daglegar athafnir og hafi þurft mikla aðstoð kæranda. Í ljósi þessa hafi kærandi ákveðið að kæra ofangreinda ákvörðun Greiðslustofu Vinnumálastofnunar í von um að úrskurðarnefndin muni taka ástæður hennar til skoðunar við endurskoðun á ákvörðun Greiðslustofu um niðurfellingu bótagreiðslna til hennar.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi vilji í fyrsta lagi koma því á framfæri að það hafi ekki verið fyrr en í starfsmannaviðtali hjá B að fram hafi komið að um væri að ræða rúmlega 100% starf. Í samtali við Vinnumálastofnun hafi alltaf verið rætt um 100% starf. Í viðtali hafi kærandi lýst áhyggjum sínum yfir því að taka starfi sem færi fram yfir 100% starfshlutfall, enda þótt kærandi sé almennt heilsuhraust sé hún X ára að aldri og ekki hægt að ætlast til að hún taki starfi sem fari yfir 100% starfshlutfall. Í kjölfar starfsmannaviðtals hafi kærandi fengið boðun í prufu hjá fyrirtækinu en í umsögn Greiðslustofu hafi komið fram að kærandi hafi þá hætt að svara tölvupóstum frá fyrirtækinu. Kærandi vilji árétta að hér sé ekki farið með rétt mál heldur hafi kærandi afþakkað starfið símleiðis í kjölfar tölvupósta frá fyrirtækinu og hafi útskýrt fyrir starfsmanni hvers vegna hún teldi sig ekki getað þegið starfið, meðal annars vegna starfshlutfalls. Í kjölfar samtals við ofangreindan starfsmann hafi kærandi fengið tölvupóst frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem hafi afsakað misskilning varðandi launakjör fyrirtækisins og hafi vonast til að kæranda gengi allt í haginn.

Í öðru lagi vilji kærandi árétta að ástæða þess að hún hafi ekki nefnt veikindi eiginmanns síns í skýringum sem hún hafi sent Greiðslustofu þann 16. nóvember 2021 hafi verið vegna ráðlegginga sem hún hafi fengið símleiðis frá starfsmanni Vinnumálastofnunar. Hann hafi greint kæranda frá því að það væri nóg að hún skýrði frá því að um væri að ræða rúmlega 100% starf og að starfið hafi ekki hentað henni þar sem hún hafi aldrei starfað sem sölumaður í búð. Kærandi vilji árétta að ef hún hefði fengið nægilega góðar leiðbeiningar þegar hún hafi haft samband við Vinnumálastofnun í upphafi máls hefði hún tiltekið allt sem fram hafi komið hjá úrskurðarnefnd varðandi ástæður þess að hún hafi afþakkað starfið.

Loks vilji kærandi ítreka að hún sé að þiggja atvinnuleysisbætur í fyrsta skipti á langri starfsævi sinni en hún hafi misst starf sitt í kjölfar niðurskurðar fyrirtækis, sem hún hafi starfað hjá í áraraðir, vegna Covid-19. Kærandi hafi kært ofangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 21. desember síðastliðinn og samkvæmt bréfi frá úrskurðarnefnd hafi Greiðslustofa Vinnumálastofnunar 14 daga frá 11. janúar síðastliðnum til að skila inn greinargerð og málsgögnum. Umsögn Greiðslustofu Vinnumálastofnunar hafi borist úrskurðarnefnd þann 24. febrúar síðastliðinn, eða rétt tæpum mánuði eftir að greinargerðarfrestur hafi runnið út í málinu. Kærandi hafi ekki fengið neinar upplýsingar um lengri umsagnarfrest Vinnumálastofnunar, en samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi, þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast, að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Kærandi hafi síðastliðna mánuði upplifað miklar fjárhagslegar áhyggjur eftir að Vinnumálastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vilji árétta að í ljósi þess hve íþyngjandi ofangreind ákvörðun Greiðslustofu Vinnumálastofnunar sé, verði málsmeðferð kæranda flýtt eins og kostur sé. Hún sé nú þegar búin að bíða í tvo og hálfan mánuð eftir niðurstöðu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 12. nóvember 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi sölumanns hjá B. Samkvæmt athugasemdum atvinnurekanda hafi kærandi verið boðuð í prufu hjá fyrirtækinu en hafi í kjölfarið hætt að svara tölvupóstum. Með erindi, dags. 16. nóvember 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum höfnunar á atvinnutilboði. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á hugsanlegum viðurlögum. Skýringar hafi borist frá kæranda sama dag þar sem hún greini frá því að hún hefði áratuga starfsreynslu sem sölufulltrúi við kynningar- og markaðsmál. Hún hafi mætt í boðað viðtal en um hafi verið að ræða 100% starf við afgreiðslu, auk vinnu aðra hvora helgi en hún sé að leita sér að 100% starfi sem sölumaður. Þá hafi kærandi greint frá því að gerð hafi verið krafa um að starfsmenn kæmu í tveggja daga prufu til að sjá hvort starfsmaður félli inn í hópinn en ekki hafi verið rætt um hvort greitt yrði fyrir þá vinnu. Kæranda hafi því fljótt verið ljóst að starfið væri ekki á hennar sviði. Þann 18. nóvember 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hennar hefðu ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi. Fyrir liggi afstaða kæranda en skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi orðrétt í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Með umsókn um atvinnuleysistryggingar sé atvinnuleitendum gert að upplýsa um allt það er kunni að hafa áhrif.

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun á starfi til Vinnumálastofnunar. Í skýringum kæranda til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi til viðbótar greint frá því að sökum heilsubrests eiginmanns hennar hafi hún ekki treyst sér til að taka umræddu starfi þar sem hún hafi þurft að aðstoða hann við allar daglegar athafnir. Með kæru hafi jafnframt fylgt læknisvottorð vegna veikinda eiginmanns hennar. Kærandi hafi ekki greint frá veikindum eiginmanns síns fyrr þar sem hún hafi fengið þær upplýsingar að ekki væri nauðsynlegt að greina frá veikindunum til viðbótar við aðrar skýringar vegna höfnunar á starfi. Upplýsingar um veikindi eiginmanns kæranda ásamt vottorði hafi fyrst borist til Vinnumálastofnunar í kjölfar kæru til nefndarinnar þann 21. desember 2021. Vinnumálastofnun hafi ekki tekið afstöðu til upplýsinganna. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi ekki verið meðvituð um að um væri að ræða 100% starf á dagvinnutíma, auk vinnu aðra hvora helgi og að afgreiðslustarf væri ekki á hennar sviði en hún væri að leita að 100% starfi sem sölumaður. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi hafnað starfi en hún mætti ekki í boðaða prufu vegna starfsins og svaraði í kjölfarið engum tölvupóstum frá atvinnurekanda.

Líkt og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá sé atvinnuleitendum skylt að taka þeim störfum sem kunni að bjóðast, án sérstaks fyrirvara. Samkvæmt umsókn um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi kærandi óskað eftir 100% starfi og hafi kærandi ekki gefið aðrar upplýsingar til stofnunarinnar en að hún væri almennt vinnufær. Þá hafi kærandi greint frá því að vegna veikinda eiginmanns síns sem hafi þurft aðstoð við allar athafnir daglegs lífs, hefði hún ekki treyst sér til að taka starfinu.

Að mati Vinnumálastofnunar megi leggja afstöðu kæranda og framferði hennar að jöfnu við því að kærandi hefði hafnað starfi. Í ljósi framangreinds séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Hvað varði skýringar kæranda er lúta að veikindum eiginmanns hennar og að umönnun hennar komi í veg fyrir að hún taki starfi þá samræmist slíkar skýringar ekki skilyrðum 14. gr. laga um atvinnuleysistrygging um virka atvinnuleit atvinnuleitanda. Út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki fallist á að kærandi hafi verið reiðubúin að taka því starfi sem bauðst, án sérstaks fyrirvara.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Óumdeilt er að kærandi hafnaði atvinnutilboði hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður kæranda fyrir þeirri höfnun hafi verið réttlætanlegar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hefur meðal annars gefið þær skýringar að um hafi verið að ræða meira en 100% starf sem hún hafi ekki treyst sér til að sinna sökum hás aldurs og veikinda eiginmanns hennar. 

Samkvæmt gögnum málsins var vinnutími umrædds starfs frá klukkan 10 til 18 alla virka daga og annan hvorn laugardag frá klukkan 11 til 15. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu, sbr. f-lið 1. mgr. ákvæðisins. Úrskurðarnefndin telur ljóst að það starf sem kæranda var boðið hafi verið meira en fullt starf, sbr. það sem að framan greinir um vinnutímann. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun kæranda um að hafna starfinu hafi verið réttlætanleg með vísan til 1. málsl. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, um að fella niður rétt A til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum